Fótbolti

Xavi frá í sjö til tíu daga - ætti að ná Arsenal-leiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Xavi í leiknum á móti Arsenal í síðustu viku.
Xavi í leiknum á móti Arsenal í síðustu viku. Mynd/AP
Barcelona verður án miðjumannsins Xavi Hernandez á næstunni vegna meiðsla sem leikmaðurinn varð fyrir um helgina. Xavi fór í myndatöku í gær og þar kom í ljós að hann hafði rifið vöðva í vinstri fæti. Meiðslin teljast þó ekki vera mjög alvarleg.

Xavi mun í það minnsta missa af deildarleikjum á móti Mallorca og Valencia en hann gæti náð leik á móti Zaragoza sem fer fram 5. mars. Barcelona er með fimm stiga forskot á Real Madrid en það mun reyna á liðið í fyrrnefndum leikjum ekki síst þar sem að þeir verða án Xavi.

Barcelona mætir Arsenal í seinni leik liðanna í Meistaradeildinni 8. mars næstkomandi og það er ekkert sem bendir til annars en að Xavi verði orðinn góður af þessum meiðslum fyrir þann leik.

Xavi hefur leikið 33 leiki með Bracelona á tímabilinu í öllum keppnum og er með 3 mörk og 11 stoðsendingar í þeim. Xavi bætti leikjametið hjá Barcelona í janúar þegar hann lék sinn 550. leik fyrir félagið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×