Innlent

Tillögur í skólamálum kynntar - segjast spara milljarð

Frá fundi borgarráðs í dag.
Frá fundi borgarráðs í dag.
Sparnaðartillögur hjá grunn-, leikskólum og frístundaheimilum voru kynntar í borgarráði í dag. Þær miða að því að finna yfir 300 ný leikskólapláss, bæta nýtingu húsnæðis borgarinnar til muna og minnka kostnað við yfirbyggingu í skólakerfi borgarinnar verulega.

„Alls eru tillögur hópsins 23. Lagt er til að yfirstjórn skóla og frístundaheimila verði sameiginleg í allri borginni frá og með hausti 2012. Fjórtán tillögur snúa að sameiningum 30 leikskóla, 3 tillögur að sameiningum 6 grunnskóla og 3 að breytingum á skólastarfi í 4 grunnskólum. Þá snúa 2 tillögur að sameiningum leik- og grunnskóla og frístundaheimila. Sameiningar stofnana koma til framkvæmda á þessu ári,“ segir í tilkynningu.

Þá segir að gert sé ráð fyrir að skipulagsbreytingar í leik-, grunnskólum og frístundaheimilum skili rúmlega 300 milljónum króna strax á næsta ári en að alls sparist um 1,1 milljarður fram til ársins 2014. „Tillögurnar gera ráð fyrir að skipulagsbreytingarnar komi í veg fyrir þörf á nýjum byggingum fyrir leik- og grunnskóla upp á ríflega 2 milljarða kr. á næstu 4 árum, en  von er á stærsta árgangi Íslandssögunnar í leikskóla borgarinnar á árinu. Með því að sleppa framkvæmdum sparast auk þessara tveggja milljarða árlegur rekstrarkostnaður vegna hita, rafmagns og þess háttar upp á 116 mkr. eða um 348 mkr. á næstu 4 árum.“

„Með því að lækka kostnað við yfirstjórn, nýta húsnæði grunnskólanna betur, endurskipuleggja frístundastarf og nota færanlegar stofur við eldri leikskóla næst fram mikil hagræðing. Þá hefur vinna starfshópsins leitt til þess að biðlistar á leikskólum munu lítið sem ekkert lengjast. Ennfremur var það talið mikilvægt að sem flest börn haldi áfram í sínum leik- og grunnskóla og verði ekki vör við þessar breytingar. Sjá fagleg rök í skýrslu starfshópsins.“



Allar upplýsingar eru jafnframt aðgengilegar á sérstökum vef menntasviðs.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×