Skoðun

Fjölmenning hafnar ofbeldi

Toshiki Toma skrifar
Frá og með 14. mars stendur yfir átak sem ber heitið Evrópuvika gegn kynþáttafordómum og misrétti og lýkur hinn 27. mars. Af því tilefni langar mig að hugleiða stuttlega kynþáttafordóma og ofbeldi í tengslum við fjölmenningu.

Árið 2006 samþykkti Reykjavíkurborg mannréttindastefnu en hún er í anda fjölmenningarstefnunnar sem borgin samþykkti 2001. Í dag eru mörg sveitarfélög, til dæmis Akureyri og Reykjanesbær, með sambærilega fjölmenningarstefnu.

Mismunandi skoðanir og skilgreiningar munu vera um hvað fjölmenningarlegt samfélag er í raun og veru. Eitt af því sem felst í hugtakinu um fjölmenningu er að skapa jákvæð viðhorf til og á milli mismunandi menningar, einnar eða fleiri. Fjölmenning er ekki menningarleysi. Í fjölmenningu viðurkennir fólk hvers virði menning þess er, en um leið ber það virðingu fyrir annars konar menningu, sem kann að vera í sama samfélagi. Gagnkvæm virðing eru lykilorðin þegar um fjölmenningu er að ræða.

Algjör andstæða gagnkvæmrar virðingar er ofbeldi. Ofbeldi felur í sér að neita tilvist annarra og eyðileggja. Þeir sem beita ofbeldi vilja ekki eignast félaga og vini og eiga við þá samræðu, heldur aðeins stjórna öðrum og krefjast af þeim hlýðni með ógnunum.

Að sjálfsögðu kemur stundum upp ágreiningur og árekstrar verða í fjölmenningarsamfélagi, rétt eins og ef aðeins ein menning ríkti. En það er ekkert rými sem viðurkennir tilvist ofbeldis í fjölmenningu. Því mótmælir fjölmenning og hafnar ofbeldi af öllu tagi: Stríði, andlegu og líkamlegu ofbeldi eins og einelti og heimilisofbeldi en einnig trúarlegu ofbeldi – og það er óþarfi að segja það – rasisma.

Eðli rasisma er ofbeldið, þar sem tilgangur rasisma er að eyðileggja virðuleika manneskjunnar og kúga, bæði á skipulagðan hátt og óskipulagðan hátt. Að þessu leyti er rasismi dæmigerð birtingarmynd ofbeldis, rétt eins og í stríði.

Að styðja fjölmenningarstefnu þýðir að viðkomandi hefur sjálfkrafa vilja til að berjast gegn rasisma og hvers konar ofbeldi. En sú barátta er ekki ofbeldi, þar sem fjölmenning neitar ekki manneskjunni um virðuleika hennar, möguleika á að iðrast eða að breyta hugmyndum sínum. Málstaður fjölmenningar er ekki eyðilegging, heldur uppbygging gagnkvæmrar virðingar.

Ég hvet sérhvern til að hugsa um sína fordóma og meta mikilvægi þess að virða náunga okkar í samfélaginu, sem og að hafna öllu ofbeldi, hvort sem það er andlegt, líkamlegt eða birtist í hugmyndum sem hvetja til ofbeldis.

 




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×