Fótbolti

Laporta: Real á bak við ásakanir um ólöglega lyfjanotkun Barcelona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joan Laporta.
Joan Laporta. Mynd/Nordic Photos/Getty
Joan Laporta, fyrrum forseti Barcelona, heldur því fram að forráðamenn Real Madrid hafi verið mennirnir á bak við tilhæfulausar ásakanir á hendur Barcelona um að þar væri stundum ólögleg lyfjanotkun. Real Madrid hefur neitað þessu en Laporto er viss.

Spænsk útvarpsstöð kom fram á dögunum með ásakanir um ólöglega lyfjanotkun hjá Barcelona en stöðin hefur seinna dregið yfirlýsingar sínar til baka og beðist afsökunar.

„Það er alveg ljóst að Real Madrid stendur að baki þessum ásökunum. Nú er tíminn fyrir þá að koma fram og biðja alla í Barcelona afsökunar," sagði Joan Laporta sem er ekki aðeins ósáttur við Real Madrid heldur einnig hvernig eftirmaður hans, Sandro Rosell, og stjórn Barcelona hafi ekki staðið sig vel að verja sakleysi sinna leikmanna.

„Þeir verða að verja leikmennina fyrir svona rógburði og ásökunum. Þeir verða líka að róa sig og fela betur reiði sína," sagði Laporta.

Þetta mál ætti aðeins að nýta undir spennuna á milli Real Madrid og Barcelona sem gætu mæst fjórum sinnum á sautján dögum í næsta mánuði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×