Innlent

Yfir 20 vörutegundir innkallaðar vegna vanmerkinga

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Myndin er úr safni og tengist ekki fréttinni beint.
Myndin er úr safni og tengist ekki fréttinni beint.
Yfir tuttugu vörutegundir hafa verið innkallaðar vegna vanmerkinga á ofnæmis- og óþolsvöldum það sem af er árinu, samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.

Í tólf tilvikum var um að ræða vörur sem innihéldu afurðir úr eggjum, án þess að það hafi komið fram á umbúðum. Björn Árdal, ofnæmislæknir, segir vanmerkingar á ofnæmisvöldum geta skapað óþægindi og jafnvel hættu fyrir fólk sem er með ofnæmi.

Óskar Ísfeld Sigurðsson, deildarstjóri hjá matvælaeftirliti heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, segir innkallanir sem þessar ekki algengar miðað við allan þann fjölda matvæla sem sé í dreifingu hér á landi, en allar innkallanir séu of margar. Hann telur það ekki þjóna tilgangi að sekta þau fyrirtæki sem vanmerki vörur sínar.

„Við þurfum að beita vægustu úrræðum til þess að ná því markmiði sem er mikilvægt hverju sinni.  Það er að stöðva dreifingu á þessum vörum og  varan sé tekin af markaði og neytendur séu upplýstir um málið,“ segir Óskar Ísfeld Sigurðsson, deildarstjóri matvælaeftirlits.

Óskar segir mikilvægt að fyrirtæki vandi sig betur í merkingum svo vörur fari ekki á markað með þessum ágöllum.

„Ég hvet alla neytendur, og aðra, til þess að láta Heilbrigðiseftirlitið vita ef þeir verða varir við svona lagað. Þeir eru endilega beðnir um að hafa samband við heilbrigðiseftirlit í landinu og láta okkur vita af þessum ágöllum. Það er mjög mikilvægt áríðandi að það verði gert,“ segir Óskar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×