Innlent

Viðræður um kísilver á Bakka

Þýskt fyrirtæki er í viðræðum við Landsvirkjun um að reisa kísilverksmiðju við Húsavík, sem myndi skapa um eitthundrað störf. Þjóðverjarnir voru fyrir norðan í gær að kynna sér aðstæður.

Þetta er fyrirtækið PCC. Það er með höfuðstöðvar í Duisburg í Þýskalandi og veltir um eitthundrað milljörðum króna. Starfsmenn eru alls um tvöþúsund talsins í tólf löndum, einkum í Austur-Evrópu.

Þrír fulltrúar félagsins voru á Húsavík í gær í fylgd fulltrúa Landsvirkjunar til að skoða aðstæður og ræða við heimamenn. Samkvæmt upplýsingum Stöðvar 2 eru viðræðurnar á frumstigi og Þjóðverjarnir með fleiri en eina tegund kísilframleiðslu í huga, en þeir eru jafnframt með tvo aðra staði til skoðunar í Austur-Evrópu.

Líklegt er að verksmiðjan yrði á stærð við kísiljárnverksmiðjuna á Grundartanga, hugsanlega byggð í tveimur áföngum og með um eitthundrað starfsmenn. Orkuþörfin yrði 30 til 50 megavött en til samanburðar þarf 250 þúsund tonna álver 400 megavött.

Þjóðverjarnir vilja helst hefja framkvæmdir á næsta ári. Þetta verkefni á hins vegar eftir að fara í umhverfismat, sem talið er taka tólf til átján mánuði, og hugsanlega enn lengri tíma ef fylgt verður fordæmi um svokallað sameiginlegt mat, eins og álver Alcoa var sett undir, en það mat tók tvö og hálft ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×