Innlent

Almannagjá lokað - ný sprunga kom í ljós

MYND/Pjetur
Starfsmenn þjóðgarðsins á Þingvöllum uppgötvuðu um daginn nýja sprungu í Almannagjá. Lítil hola hafði myndast á göngustígnum í gjánni en þegar betur var að gáð reyndist um sprungu að ræða, 10 til 14 metra djúpa sem teygir sig til suðurs undir göngustígnum.  

„Barmar sprungunnar eru lausir og erfitt að komast framhjá,“ segir á heimasíðu þjóðgarðsins og í öryggisskyni hefur syðsta hluta gjárinnar verið lokað fyrir umferð ferðamanna meðan ákveðið verður hvernig brugðist verður við.   

„Ferðaþjónustuaðilar eru beðnir að virða þetta bann en hægt er að ganga fram að útsýnisskífunni við Hakið og frá Flosagjá að Lögbergi.  Ekki er hægt að ganga frá Lögbergi að Hakinu,“ segir einnig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×