Innlent

Það sækir uggur að Jóhönnu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Jóhanna Sigurðardóttir hefur áhyggjur af ríkum útlendingum sem koma til Íslands. Mynd/ Stefán.
Jóhanna Sigurðardóttir hefur áhyggjur af ríkum útlendingum sem koma til Íslands. Mynd/ Stefán.
Það vekur upp áhyggjur og grunsemdir ef fjársterkir aðilar eru að koma hér og sækja um ríkisborgararétt til að geta fjárfest í íslenskum orkuauðlindum. Þetta sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Björn Valur Gíslason, þingmaður VG, spurði forsætisráðherra út í málið.

Björn Valur vísaði í fréttir af þessu efni og sagðist hafa heyrt af því að fjársterkir aðilar frá Bandaríkjunum og Kanada hafi óskað eftir íslenskum ríkisborgarrétti fyrir sig og börnin sín. Þeir hafi hug á að fjárfesta í endurnýjanlegri orku hér á landi. Björn Valur spurði hver afstaða ráðherra væri til þessa máls. „Kemur til greina að selja ríkisborgararéttinn með þeim hætti sem hér um ræðir?" spurði Björn Valur.

Jóhanna sagðist ekki hafa kynnt sér þetta mál sjálf sérstaklega, en hún hefði vissulega áhyggjur af málinu eins og þingmaðurinn lýsti því. „Það sækir að manni uggur hvað það mál varðar," sagði Jóhanna. Hún sagði að málið væri í höndum allsherjarnefndar sem hún vænti að myndi skoða það vel og gaumgæfilega. „En okkur er ekki sama um það hverjir það eru sem koma hér," sagði Jóhanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×