Innlent

Ögmundur nýtur þess að heyra suðið í litlu rellunum

Ögmundur Jónasson, ráðherra flugmála, býður borginni upp á sátt um færanlega flugafgreiðslu á Reykjavíkurflugvelli en segir tómt mál um að tala að flugvöllurinn verði fluttur. Norður-suðurbrautinni verður lokað eftir fimm ár, og vellinum síðan alfarið eftir þrettán ár, samkvæmt stefnu borgarinnar, en fyrr í vetur höfnuðu ráðamenn hennar áformum um samgöngumiðstöð.

Fyrrverandi samgönguráðherra, Kristján. L. Möller, sem tók málið upp í þinginu, er ekki sáttur. Hann sagði að með skipulegum hætti, með skipulagsbreytingum og með aðgerðarleysi og doða, hefðu borgaryfirvöld unnið að því leynt og ljóst að gera Reykjavíkurflugvöll óstarfhæfan. Flugið væri í spennitreyju allra flokka í borgarstjórn Reykjavíkur.

Eftirmaður hans, Ögmundur Jónasson, ítrekaði þá skoðun sína að flugvöllurinn ætti að vera áfram í Vatnsmýri. Hann hefði í viðræðum við borgina lagt til að nýtt húsnæði yrði byggt við hlið Flugfélagsafgreiðslunnar. Ríkið væri fyrir sitt leyti tilbúið að horfa til óska Reykjavíkurborgar um að slík bygging væri færanleg.

Hann sagði borgaryfirvöld standa föst á áformum sínum um að flugvöllurinn fari. "Hins vegar er hitt sannað að við höfum ekki peninga til að flytja flugvöllinn. Þannig að það er tómt mál um það að tala."

Sjálfur kvaðst Ögmundur ekki kvarta. Hann byggi í um 500 metra fjarlægð frá flugvellinum og kynni því sambýli ágætlega. Hann beinlínis nyti þess að heyra í litlu rellunum. "Mér finnst þetta alltaf yndislegur vorboði þegar ég heyri suðið í litlu æfingaflugvélunum yfir Reykjavíkurflugvelli," sagði Ögmundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×