Innlent

"Margir hrikalega illa farnir eftir þetta"

Sex íslenskar konur í kringum tvítugt voru um borð í tveggja hæða skemmtiferðarbát sem hvolfdi skammt frá Strandbænum Sihanoukville í Suður Kambódíu í gær. Þær og aðrir farþegar sluppu naumlega en það þykir kraftaverki líkast að ein þeirra lifði slysið af þar sem hún var læst inni á baðherbergi neðst í skipinu.

Íslensku konurnar hafa verið að ferðast um Asíu í tveimur hópum undanfarna þrjá mánuði. Þetta var í annað skiptið sem þær hittust allar aftur og ákváðu að fara í siglingu á tveggja hæða skemmtiferðarbát yfir til eyju skammt frá strandbænum Sihanoukville í Suður-Kambódíu. 90 manns voru um borð í bátnum aðallega Evrópubúar og hann hafði verið á siglingu í rúma klukkustund.

„Ein af okkur var inni á baðhergi og fann að sjórinn var kominn inn á baðið en hún náði einhvern veginn að koma sér út." segir Eva Sigrún Guðjónsdóttir.

Nokkrar farþeganna náðu að stökkva úr bátnum um leið og honum hvolfdi. „Ég rann á handriðið," segir Eva Sigrún. „Það eru mjög margir hrikalega illa farnir eftir þetta, lemstraðir og handleggsbrotnir."

Bátar í kring komu fólki samstundis til hjálpar. Þær sluppu allar ómeiddar fyrir utan nokkrar skrámur og aðrir farþegar lifðu slysið af. „Manni leið alveg skelfilega. Fólk var öskrandi og leitandi af vinum sínum og allir í þvílíku sjokki. Ég mann varla eftir atburðarrásinni," segir Eva Sigrún.

Konurnar hafa enn ekki fengið skýringar á orsök slyssins en erlendir fjölmiðlar greindu frá því að of mikið af fólki hefði verið á bátnum, sem hafi verið að dansa. Eva Sigrún segir engan hafa dansað um borð þegar bátnum hvoldi en enginn sjáanlegur öryggisbúnaður hafi verið um borð. Þær láta slysið þó ekki hafa áhrif á sig og halda nú ferðalagi sínu áfram til Víetnam og Tælands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×