Innlent

Þingmenn metast um Icesave

Tryggvi Þór Herbertsson.
Tryggvi Þór Herbertsson. Mynd/Anton
Vaxandi spennu gætir meðal þingmanna vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave samninginn sem fram fer á morgun en þess má sjá glögg merki í skeytasendingum milli nokkurra þingmanna í kjölfarið á tölvupósti sem hagfræðingurinn Gunnar Tómasson sendi þingmönnum og nokkrum fjölmiðlamönnum fyrr í dag. Erfitt er að halda því fram að umræðan sé upplýsandi eða málefnaleg.

Í tölvubréfinu bendir Gunnar þingmönnum á skrif hagfræðingsins Michael Hudson um Icesave og þá ákvörðun meirihluta Alþingis að samþykkja samninginn. Með því gengur Alþingi Íslendinga erinda Breta og Hollendinga í stað eigin þjóðar, að mati Michael Hudson.

Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er heldur ósáttur með tölvupóstinn og svarar Gunnari um hæl í tölvubréfi sem hann sendir á alla þá sem fengu upphaflega póstinn frá Gunnari. „Gunnar ég hef nú aldrei svarað þér áður, en óskaplegt bull er þetta sem þú ert alltaf að senda.“

Þessu svarar Lilja Mósesdóttir, sem nú er utan þingflokka, og gefur lítið fyrir athugasemd Tryggva. „Maður sem titlar sig prófessor í hagfræði hlýtur að geta fært betri rök fyrir máli sínu en að eitthvað sé bull!!“

Gunnar svarar Tryggva einnig með eftirfarandi skrifum: „Bull – Mishkin – Askar – kokhreysti,“ og vísar m.a. til starfa Tryggva hjá Askar Capital og skrifa hans ásamt hagfræðingnum Fredrich Mishkin fyrir Viðskiptaráð tveimur árum fyrir hrun þar sem fram kom að litlar líkur væri á alvarlegum efnahagsþrenginum hér á landi.

Því næst blandar Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG, sér í umræðuna. „Ágætu hagfræðingar. Hlífið okkur dauðlegum við þessum metingi ykkar sem er ekki áhugaverður.“

Tryggvi bregst skjótt við og tekur vel í sjónarmið Álfheiðar um leið og hann kallar hana Alfí. „Fyrir líffæðinga þessa heims og annars mun ég ekki svara neinu að áeggjan Alfí.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×