Innlent

Backyard sýnd í Seattle og í Karlovy Vary

Árni Sveinsson, leikstjóri Backyard.
Árni Sveinsson, leikstjóri Backyard.
Kvikmyndin Backyard í leikstjórn Árna Sveinssonar sem var frumsýnd síðastliðið haust hefur verið valin til sýninga á alþjóðlegu kvikmyndahátíðunum í Seattle (SIFF) og í Karlovy Vary í Tékklandi.

Seattle hátíðin er með þeim stærstu í heimi og verður haldin í 37 skiptið frá 19. maí til 12. júní næstkomandi. Hátíðin tekur um 400 kvikmyndir frá 60 þjóðlöndum til sýninga og eru áhorfendur um 150 þúsund. Backyard mun svo fara á flakk í kjölfarið og verða sýnd á nokkrum minni hátíðum um heim allan, meðal annars í Frakklandi, Belgíu, Svíþjóð, Rússlandi og Austurríki.

Hátíðin í Karlovy Vary er ekki síður þekkt og telst til helstu hátíða í kvikmyndabransanum í Evrópu. Hún er haldin í júlí ár hvert og var fyrst haldin hátíðleg árið 1946.

„Ég er verð að segja að þetta kemur manni mjög á óvart,“ segir Árni Sveinsson leikstjóri myndarinnar í samtali við Vísi. „En eftir að við fengum verðlaunin þarna á CPH:DOX í Köben í haust hefur ásókn og fyrirspurnir um myndina aukist til muna. Siff og Karlovy Vari eru eiginlega hátíðir af þeirri stærðargráðu að vi365ð vorum ekki einusinni að sækja um þær, en báðar þessar hátíðir báðu um hana af fyrrabragði. Ég hlakka mikið til enda hef ég ekki komið til Karlovy Vary síðan ´96. Síðan á ég systur í Seattle þannig að það verður bónus að hitta hana.“

Backyard kemur svo út á DVD á Íslandi í byrjun júní ásamt geisladiski með tónlist úr myndinni. Þangað til verður hún fáanleg á VOD þjónustu Símans og Vodafone.

Myndin verður svo gefin út í DVD formi á alþjóðavísu í september næstkomandi.

Hér má fræðast meira um Backyard.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×