Innlent

Kennari sendur í leyfi vegna gruns um vændiskaup

Myndin er úr safni og tengist ekki fréttinni beint.
Myndin er úr safni og tengist ekki fréttinni beint.
Rannsóknarlögreglan framkvæmdi húsleit í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi á miðvikudaginn að fengnum dómsúrskurði samkvæmt fréttavef Skessuhorns.

Að sögn Harðar Ó Helgasonar skólameistara var ástæðan sú að einn kennara skólans hefur verið kærður til lögreglu fyrir kaup á vændi.

Rannsókn málsins stendur yfir en þar til henni lýkur verður kennarinn í leyfi frá störfum samkvæmt Skessuhorni. Skólameistari hefur nú tilkynnt samstarfsmönnum og nemendum skólans þetta.

Hörður segir í viðtali við Skessuhorn að viðbrögð við málum af þessu tagi, sem kunna að koma upp í skólakerfinu, séu samkvæmt leiðbeinandi reglum sem menntamálaráðuneytið gaf út í september 2010 og beint er til skólameistara í þeim tilfellum þegar kynferðisbrotamál koma upp.

Hörður segist hafa ráðfært sig við lögfræðing á starfsmannasviði ráðuneytisins og við skólanefnd FVA. Samdóma álit þessara aðila var að viðkomandi kennari yrði sendur í leyfi meðan rannsókn stendur yfir. Þeir nemendur FVA sem Skessuhorn ræddi við eru mjög slegnir yfir málinu, enda kennarinn samviskusamur og farsæll og vinsæll í röðum nemenda.

Ekki náðist í lögregluna vegna málsins.

Hægt er að nálgast frétt Skessuhorns hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×