Innlent

Tíu hafa sótt um hæli á þessu ári - allt karlar

Mynd úr safni / Stefán Karlsson
10 einstaklingar hafa leitað hælis hér á landi á þessu ári allt karlar. Auk þeirra eru enn 11 umsóknir um hæli frá árinu 2010 til vinnslu hjá Útlendingastofnun.

Þetta kemur fram í gögnum sem Útlendingastofnun tók saman fyrir fréttastofu. Þar kemur meðal annars fram að fjöldi einstaklinga í hælisleit hefur verið svipaður undanfarin ár. En á árunum 2005 til 2010 sóttu að meðaltali 45 einstaklingar um hæli hér á ári hverju. Eða all 267 alls.

Mikill meirihluti hælisleitenda eru karlar eða 198. 40 konur sóttu um hæli á þessum tíma og með þeim 29 börn.

Á sama tíma eru afar fáir sem fá hæli hér á landi.

Árið 2005 voru það þrír, 2006 enginn, 2007 átta, 2008 12, 2009 níu og 2010 fimm.

Því skal haldið til haga að þrátt fyrir að afar fáir fái hér hæli er það ekki þannig öllum öðrum sé synjað eins og ranglega var sagt í fréttum okkar fyrr í vikunni.

Til að mynda fá ekki allar umsóknir efnilslega meðferð, sumir hælisleitendur draga sjálfir umsóknir sínar til baka eða hreinlega hverfa. Þá eru enn aðrir endursendir til þess lands innan Schengen svæðisins sem ber, samkvæmt mati Útendingastofnunnar, að fjalla um mál viðkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×