Innlent

Banki "hrekkir" Guðmund á Núpum: Þarf að greiða 87 milljónir

Valur Grettisson skrifar
Landsbankinn.
Landsbankinn.
Guðmundur A. Birgisson, yfirleitt kenndur við Núpa, var í dag dæmdur til þess að greiða Nýja Landsbankanum 87 milljónir sem hann hafði fengið að láni frá bankanum. Um var að ræða viðskiptasamning um reikningslánalínu sem var gerður árið 2007 en alls fékk hann 95 milljónir lánaðar.

Guðmundur átti að greiða lánið í október 2008 en vanskil urðu hjá Guðmundi þannig lánið féll í gjalddaga.

Guðmundur vildi meina að hann væri ekki aðili að málinu í ljósi þess að vafi leiki á hvort nýi eða gamli Landsbankinn sæki kröfuna. Orðrétt segir í vörn Guðmunds:

„NBI hf. og Landsbanki Íslands hf. eru tvær skepnur skiptar úr einni. Þannig á stefnandi þessa máls ekkert erindi að þessu leyti við stefnda, heldur við Landsbanka Íslands hf., og þetta eiga afkvæmin tvö að útkljá sín í milli, en vera ekki að hrekkja stefnda að svo stöddu og umfram það, sem þegar er orðið."

Þess má geta að Landsbankinn sækir fjögur önnur dómsmál gegn Guðmundi. Héraðsdómur Reykjavíkur fellst ekki á aðildarskort Guðmundar og dæmir hann því til þess að greiða lánið.

Orðrétt segir í niðurstöðu dómsins: „Stefndi hefur ekki greitt lán þetta svo sem honum ber að gera. Aðrar þær málsástæður er stefndi byggir á í greinargerð sinni eru með öllu vanreifaðar."

Guðmundur A. Birgisson er meðal annars stjórnarmaður í Sonja Zorrilla Foundation.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×