Erlent

Svíadrottning slasaðist á flótta undan ljósmyndara

Óli Tynes skrifar
Svíadrottning gengur við hækjur í New York.
Svíadrottning gengur við hækjur í New York. Linus Sundahl-Djerf / SCANPIX
Sænska Aftonbladet hefur beðist afsökunar á aðgangshörku blaðamanns síns og ljósmyndara sem varð þess valdandi að Sylvía drottning datt og meiddist á hönd og fæti. Drottningin er í New York til þess að taka þátt í ráðstefnu um velferð barna og til að hitta dóttur sína Madeleine sem þar heldur til. Hún hefur verið dugleg við að brosa og veifa til blaðamanna en vildi fá að vera í friði í verslun sem hún heimsótti.

Útsendarar Aftonbladet eltu hana hinsvegar á röndum og sinntu engu beiðni lífvarða um að leyfa henn að versla í friði. Drottningin ákvað þá að yfirgefa verslunina út um hliðardyr en útsendararnir eltu hana þangað.

Drottningin greikkaði þá sporið með þeim afleiðingum að hún féll og sneri sig illa á fæti og úlnlið. Lífverðirnir komu henni um borð í bílinn og óku með hana á sjúkrahús. Þessu reiddust Svíar svo að Aftonbladet sá þann kost vænstan að biðja drottninguna afsökunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×