Formúla 1

Fyrsta Formúlu 1 mótið stórkostleg upplifun hjá Paul di Resta

Skotinn Paul di Resta ekur með Force India.
Skotinn Paul di Resta ekur með Force India. Mynd: Getty Images/Paul Gilham
Skotinn Paul di Resta keppir í Malasíu um næstu helgi með Force India liðinu. Hann keppti í fyrsta Formúlu 1 mótinu í Ástralíu á dögunum, en di Resta varð meistari í DTM mótaröðinni í fyrra með Mercedes. Hann og liðsfélagi hans Adrian Sutil frá Þýskalandi skiluðu sér báðir í stigasæti í Ástralíu.

„Fyrsta mótið var stórkostleg upplifun, og ég hef beðið þessa í mörg ár og þetta var betra en ég hefði getað ímyndað mér", sagði di Resta í fréttatilkynningu frá Force India.

„Þetta gekk framar vonum hvað skilvirkni bílsins varðar og það eru spennandi tímar framundan, þegar nýir hlutir í yfirbygginguna líta dagsins ljós. Við skiluðum báðum bílum í stigasæti og hefðum ekki getað beðið um meira."

Di Resta hefur ekið Sepang brautina í Malasíu og fór nokkra hringi á fyrri föstudagsæfingunni í fyrra, en var þá ekki orðinn keppnisökumaður Force INdia.

„Ég naut mín vel á brautinni, en hitinn og rakinn er erfiðari viðfangs en annars staðar þar sem við keppum. Það verður fróðlegt að sjá hvernig okkur tekst til og mig hlakkar til að keppa í öðru mótinu fyrir liðið", sagði di Resta.

Sutil taldi að fyrsta mót ársins hefði verið áhugavert og að allir hefðu talið að mótið yrði vandasamt vegna nýju dekkjanna, stillanlegs afturvængsins og fjölda takka í stýrinu á bílunum í dag. Hann sagði bílinn ekki eins slæman og liðið hefði búist við í fyrsta mótinu og árangurinn hefði verið góður.

„Við gerðum okkar ekki háar hugmyndir eftir síðustu æfingu vetrarins og markmið okkar var að ljúka keppni. Það tókst með og við náðum í nokkur stig. Ég er ánægður með útkomuna. Pirelli dekkin skiluðu sínu og fyrirtækið stóð sig vel", sagði Sutil um nýja dekkjaframleiðandann.

Sutil náði fimmta sæti í Malasíu í fyrra og segir mótið hafa verið frábært og hann hefði náð einum sínum besta árangri á ferlinum í mótinu.

„Þetta er erfið braut og með vel uppsettan bíl nýtur maður þess að keyra hana. Mótið er venjulega áhugavert hvað varðar keppnisáætlanir, af því maður veit ekki hvort ringingin hefur áhrif á liðin, þannig að þetta er vandasamt en líka spennandi", sagði Sutil.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×