Breski kylfingurinn Lee Westwood komst heldur betur í hann krappann um helgina þegar einkaþota hans varð að nauðlenda er eldur kom upp í flugvélinni.
Westwood var nýlagður af stað frá Houston á leið til Augusta, þar sem Masters fer fram, er eldur blossaði upp í stjórnklefanum. Snúa varð vélinni samstundis við og lenda.
"Við vorum ekki búnir að vera í loftinu í nema svona tvær mínútur þegar eldurinn blossaði upp. Þetta var frekar ógnvekjandi. Það lítur aldrei vel út að sjá reyk í flugvél og flugmenn með súrefnisgrímur," sagði Westwood.
Westwood varð annar á síðasta Masters-móti og spurning hvort það verði enn skrekkur í honum eftir flugið þegar mótið hefst.
Kviknaði í einkaþotu Lee Westwood
Henry Birgir Gunnarsson skrifar
