Erlent

Órói í páfagarði vegna verkfæris Satans

Kvikmyndin Habemus Papam, sem frumsýnd var á Ítalíu síðastliðinn föstudag og fjallar um taugaveiklaðan páfa sem þarfnast sálfræðiaðstoðar til að takast á við álagið í Vatikaninu, hefur vakið hörð viðbrögð hjá kaþólsku kirkjunni.

Kaþólikkar hafa lýst myndinni sem „verkfæri Satans" og segja hana sérlega móðgandi vegna þess að hún er frumsýnd rétt fyrir páska.

Lögfræðingur Vatíkansins, Bruno Volpe, hefur þegar höfðað meiðyrðamál gegn leikstjóranum og sömuleiðis hvatt kaþólikka til að sniðganga myndina.

„Af hverju ættum við að styðja eitthvað fjárhagslega sem lítilsvirðir trú okkar?" spyr hann, og viðurkennir um leið að hafa ekki séð myndina.

Kvikmyndin verður sýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes, sem verður haldin í maí á þessu ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×