Handbolti

Logi verður með FH í kvöld

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Logi Geirsson.
Logi Geirsson.
Úrslitakeppni N1-deildar karla hefst í kvöld og er búist við afar hörðum slag á milli FH og Fram í Kaplakrika. FH-ingar hafa styrkst fyrir leikinn því Logi Geirsson verður á skýrslu hjá FH-ingum.

"Ég verð í hópnum en býst ekki endilega við að taka mikinn þátt í leiknum. Ég er reynslubolti sem mun reyna að gefa eitthvað af mér," sagði Logi en hann er ekki enn orðinn fullgóður af axlarmeiðslum sínum.

Hann er þó á ágætum batavegi og spilaði í tíu mínútur gegn HK í lokaumferð N1-deildarinnar.

Sem fyrr verður mikið um dýrðir í Krikanum enda FH-ingar rómaðir fyrir sína frábæru umgjörð. Líkt og áður verður grillað fyrir leik og ekki bara hamborgara að þessu sinni því einnig verður boðið upp á Bratwurst-pylsur.

Hjörtur Hinriksson FH-ingur og Guðjón Finnur Drengsson, fyrrum leikmaður Fram, munu standa vaktina á grillinu.

Eftir leik verða FH-ingar síðan með glæsilegt sjávarréttahlaðborð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×