Handbolti

Alexander getur ekki kastað sársaukalaust

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alexander í leik með Füchse Berlin.
Alexander í leik með Füchse Berlin. Nordic Photos / Bongarts
Alexander Petersson, leikmaður Füchse Berlin í Þýskalandi, hefur ekki getað æft af fullum krafti síðustu vikurnar.

Füchse Berlin er í rúmri mánaðarpásu frá keppni í þýsku úrvalsdeildinni þar sem að mikið er spilað í Evrópukeppnum þessa dagana.

Alexander hefur spilað mikið á leiktíðinni enda bæði lykilmaður hjá Füchse Berlin og íslenska landsliðinu. Hann hefur af og til þurft að glíma við meiðsli og nú finnur hann fyrir sársauka þegar hann kastar boltanum.

„Ég þarf einfaldlega á pásu að halda,“ sagði Alexander við þýska fjölmiðla í gær. „Það gengur ekki nógu vel hjá mér. Ég finn enn fyrir sársauka við ákveðnar hreyfingar. Þetta hefur verið að há mér í síðustu leikjum enda skoraði ég lítið í þeim.“

Dagur Sigurðsson er þjálfari Füchse Berlin og leist ekki nógu vel á framhaldið.

„Það er ekki neinn merkjanlegur bati sjáanlegur. Við höfum áhyggjur af því. Hann er því afar tæpur fyrir leikinn gegn Lemgo, sérstaklega ef hann nær ekki að æfa af fullum krafti fyrir leikinn.“

Füchse Berlin spilaði síðast þann 29. mars en leikurinn gegn Lemgo verður á miðvikudaginn næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×