Erlent

Fatah og Hamas semja um bráðabirgðastjórn

Frá Palestínu.
Frá Palestínu.
Skriður er kominn á samningaumleitanir milli Fatah hreyfingar Abbasar forseta Palestínu á Vesturbakkanum og Hamas hreyfingarinnar á Gaza, að sögn Sveins Rúnars Haukassonar formanns samtakanna Ísland-Palestína.

Hann segir að samkomulag verði undirritað milli þessara hreyfinga Palestínumanna í næstu viku um stofnun bráðabirgðastjórnar embættismanna sem undirbúi kosningar á báðum yfirráðasvæðunum innan árs.

Samningaviðleitni hafi staðið yfir með hléum í Kæró höfuðborg Egyptalands, Damaskus höfuðborg Sýrlands og á fleiri stöðum sem leitt hafi til þessarar niðurstöðu.

Mikil óeining hefur ríkt milli Fatah hreyfingarinnar og Hamas samtakanna, eftir að síðarnefndu samtökin unnu kosningasigur á Gaza fyrir þremur árum.

Ísraelsmenn og Bandaríkjamenn skilgreina Hamas sem hryðjuverkasamtök og hafa Ísraelar meira og minna haft Gaza í herkví síðan þá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×