Handbolti

Einar Andri: Þetta verða hnífjafnir leikir

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Logi Geirsson fór með FH-ingum til Akureyrar.
Logi Geirsson fór með FH-ingum til Akureyrar.
Logi Geirsson mun spila með FH gegn Akureyri í kvöld þó svo hann sé ekki upp á sitt besta og geti ekki beitt sér af fullum krafti. Úrslitarimman um Íslandsmeistaratitilinn um handbolta hefst í kvöld.

"Ég verð afleysingamaður á bekknum og reyni að hjálpa til. Ég verð ekki í stóru hlutverki," sagði Logi við Vísi í dag en þess utan eru aðrir leikmenn FH klárir.

Einar Andri Einarsson, annar þjálfara FH-liðsins, viðurkennir að biðin eftir leiknum hafi verið löng og menn séu því spenntir að byrja.

"Þessi níu daga bið er svolítið mikið og þetta hefði alveg mátt byrja fyrr. Það var samt fínt að fá tíma til að jafna sig eftir síðustu rimmu en fjórir til fimm dagar hefðu vel dugað okkur," sagði Einar Andri en FH-ingar eru nýfarnir á loftið á leið til Akureyrar.

"Við erum búnir að æfa vel um páskana og skoða myndbönd af Akureyringunum. Menn mæta því vel undirbúnir en þetta verður geysilega erfitt verkefni enda var Akureyri með besta liðið í vetur og hefur þess utan frábæran heimavöll," sagði Einar Andri sem býst við jöfnum leikjum.

"Liðin þekkjast mjög vel og munu tæplega koma nokkuð á óvart með sínum leik. Við höldum áfram með það spil sem hefur gengið vel eftir áramót. Ég á von á hnífjöfnum leikjum í þessari seríu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×