Erlent

Bin Laden skýldi sér ekki á bakvið konu

Óli Tynes skrifar
Osama Bin Laden
Osama Bin Laden
Bandarísk yfirvöld hafa dregið til baka fréttir um að Osama Bin Laden hafi reynt að skýla sér á bakvið konu sína þegar bandarískir hermenn réðust inn í virki hans. Konan hafi særst í skotbardaga í húsinu líklega þegar hermennirnir skutust á við verði Al Kaida leiðtogans. Önnur kona hafi látið lífið.

 

Breska blaðið Daily Telegraph hefur eftir bandarískum embættismanni að Bin Laden hafi ekki verið vopnaður og ekki skotið á hermennina. Þá hefur verið upplýst að í virki hans í Pakistan hafi verið 23 börn og níu konur. Þeim hafi verið skilað ómeiddum í hendur pakistanskra yfirvalda.

 

Háværar umræður eru nú um hvort rétt sé að birta myndir af þessum atburði en Obama forseti og helstu ráðgjafar hans fylgdust með honum í beinni útsendingu í gegnum myndavélar á hjálmum hermannanna. Jafnframt er deilt um hvort sýna eigi frá því þegar líki Bin Ladens var sökkt í sæ. Það er lagalegt álitamál þar sem alþjóðlegar reglur gilda um myndbirtingar af föngum og föllnu fólki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×