Innlent

Björninn rúllaði sér í snjóskafli og hljóp svo til fjalla

Beðið er átekta með aðgerðir á Hornströndum en þar sást til Ísbjarnar í morgun. Að sögn lögreglunnar á Vestfjörðum er hann nú horfinn sjónum sjómannanna sem sáu hann í Hælavík í morgun. Þeir sáu hann velta sér um í fjörunni áður en hann hljóp til fjalla. Nokkur þoka er á svæðinu og því erfitt um vik við að leita að dýrinu.

„Ísbjörninn lék sér í snjóskafli og rúllaði þar og velti“, segir Reimar Vilmundarson, skipstjóri á Sædísi ÍS, en hann var einn þriggja sjómanna á grálseppuveiðum sem sáu ísbjörninn í Hælavík í morgun. Reimar segir að þeir hafi séð björninn þegar þeir komu inn á Hælavík til að vitja um grásleppunet um klukkan hálfníu í morgun.

„Hann fór þarna upp í snjóskafl og var að velta sér og rúlla, til og frá," sagði Reimar en þeir um þrjátíu til fjörutíu metra frá honum þegar næst var en björninn hvarf síðan inn í þoku.

„Okkur fannst hann ekkert vera mjög stór. En hann var mjög hress miðað við hraðann sem var á honum þegar hann fór upp hlíðina. Þegar við fórum að bjalla á hann þá kom hann bara alveg niður í flæðarmál til okkar en svo rauk hann upp fjallið."

Reimar og félagar ætla þrátt fyrir ísbjörninn að halda áfram á grásleppuveiðum í Hælavík og segjast ekkert smeykur: „Nei, nei, bara fallegt að sjá þetta."

Kristján Már Unnarsson ræddi við við Reimar Vilmundarson, skipstjóra á Sædísi ÍS, í hádegisfréttum Bylgjunnar.


Tengdar fréttir

Ísbjörn á Hornströndum

Áhöfn fiskibáts sem staddur var fyrir utan Hælavík á Hornströndum sá ísbjörn vappandi í fjörunni þar rétt fyrir klukkan níu í morgun. Sjómennirnir höfðu samnband við Landhelgisgæsluna og þyrla hennar á leið í loftið til þess að kanna málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×