Innlent

Talsvert kvartað yfir taumlausum hundum

Hundur að sprella. Athugið að myndin tengist ekki fréttinni beint.
Hundur að sprella. Athugið að myndin tengist ekki fréttinni beint. Mynd / Valgarður Gíslason
Hundaeftirlitið hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur minnir á að hundar skulu án undantekninga vera í taumi á borgarlandinu. Talsvert er kvartað yfir að hundeigendur fari ekki eftir þessum reglum og að óþægindi, hræðsla og jafnvel hætta skapast af þeim sökum eins og segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

„Ég beini því til allra hundeigenda að virða hundasamþykktina, það er leiðin til að sátt skapist um hundahald. Munum að hafa hundana okkar í taumi og þrífa upp skítinn svo við getum öll notið útivistar í borginni," segir Árný Sigurðardóttir framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og bendir ennfremur á að hafa taumhald á hundum sínum í nánd við varp fugla.

Hundaeftirlitið vill ennfremur minna á að bannað er að vera með hunda á ylströndinni í Nauthólsvík, á hólmunum í Elliðaárdal og við bakka Elliðaánna um laxveiðitímann.

Þá er óheimilt er að hleypa hundum á sund í Elliðaám á laxveiðitíma. Heimilt er aftur á móta að sleppa hundum lausum á Geirsnefni, Geldingarnesi og auðum svæðum fjarri íbúðabyggð og innan hundaheldra girðinga en þó ávallt í umsjá ábyrgs aðila.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×