Erlent

Strauss-Kahn sætir sjálfsvígseftirliti

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Gordon Brown hefur verið nefndur sem næsti forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Sérstaklega er fylgst með Dominique Strauss-Kahn til að tryggja að hann taki ekki eigið líf í fangelsinu á Rikers-eyju.

Strauss-Kahn hefur verið afskrifaður sem frambjóðandi í forsetakosningunum í Frakklandi á næsta ári. Sama hver niðurstaðan í sakamálinu á hendur honum verður. Hann dvelst nú í einangrun í fangelsinu á Rikers-eyju en hann var ákærður fyrir tilraun til nauðgunar og frelsissviptingu.

„Hann er í gæsluvarðhaldi. Hann sætir sjálfsvígseftirliti af hálfu heilbrigðisstarfsmanns. Við komuna hingað mátu læknar og sálfræðingar hann og töldu nauðsynlegt að hann sætti sjálfsvígseftirliti," segir Norman Seabrook, fangavörður á Rikers-eyju.

Strauss-Kahn sem á við svefnvandamál að stríða er líka með sérstaka öndunargrímu og hylki í klefanum sínum, svokallað C-PAP, sem hann setur á sig þegar hann þarf að sofa.

Strauss-Kahn hefur ekki áður verið ákærður fyrir nauðgun eða ofbeldi. Hann hefur hins vegar viðurkennt kvensemi sína og sagt að hún gæti komið sér í koll. Í viðtali við Liberation sem tekið var í apríl og birtist fyrst í vikunni segir hann að þrír hlutir kunni að há honum í baráttu um embætti forseta Frakklands; peningar, kvensemi og sú staðreynd að hann er gyðingur. Strauss-Kahn segir að árum saman hafi verið rætt um ætlaðar myndir af honum í kynlífsorgíum, en þessar myndir hafi aldrei birst.

New York Times segir að fólk í kringum Strauss-Kahn hafi árum saman litið framhjá að því er virðist stjórnlausri kvensemi hans, vegna gáfna hans, sjarma og vinnusemi.

Arftaki Strauss-Kahns hjá AGS hefur ekki enn verið ráðinn, en Timothy Geithner, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, sagði í dag að ráða þyrfti a.m.k tímabundið í starfið því Strauss-Kahn ætti ekki afturkvæmt í embættið eftir ásakanirnar. Gordon Brown hefur verið nefndur sem arftaki hans, en hann þykir umdeildur og sagði Anders Borg, fjármálaráðherra Svía, sagði í dag að hann væri ekki rétti maðurinn í starfið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×