Erlent

Kjaftaði stanslaust í 16 tíma

Óli Tynes skrifar
Símadaman færð frá borði.
Símadaman færð frá borði.
Hefur þig einhverntíma langað til að kyrkja manneskju sem talaði hátt og lengi í farsímann sinn? Ef svo, ertu heppinn að hafa ekki verið í klefa með henni Lakeyshu Beard þegar hún tók sér far með lest þvert yfir Bandaríkin á dögunum. Lakeysha var í svokölluðum hljóðum klefa þar sem allar samræður eru bannaðar. Lakeysha var svosem ekkert að reyna að tala við meðfarþega sína. Hinsvegar blaðraði hún hástöfum í farsímann sinn. Og blaðraði. Og blaðraði. Í sextán tíma samfleytt.



Það var reynt sussa á hana, en ekkert dugði. Lakeysha er stæðileg kona og þöglum farþegunum leist ekkert á að byrsta sig við hana. Eftir sextán tíma höfðu þeir þó fengið nóg (Er það ekki guðdómleg þolinmæði?) En það fór eins og þá hafði raunar grunað, Lakeysha gerðist herská mjög. Svo herská að lestin var stöðvuð í næsta bæ og lögreglan flutti hana frá borði. Það gekk svo illa að hún var kærð fyrir  götuóeirðir. Lestin hélt svo áfram ferðinni án hennar og hrjáðir farþegarnir hafa vonandi getað lagt sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×