Erlent

Kaffidrykkja dregur úr líkunum á krabbameini í blöðruhálskirtli

Ný bandarísk rannsókn sýnir að kaffidrykkja dregur verulega úr líkunum á því að karlmenn fái krabbamein í blöðruhálskritli.

Um er að ræða mjög umfangsmikla rannsókn sem náði til 55.000 bandarískra karlmanna. Í ljós kom að hættan á að fá krabbamein í blöðruhálskirtli í einhverri mynd minnkaði um 20% hjá þeim sem drekka að jafnaði sex bolla eða meir af kaffi daglega.

Hættan á því að fá alvarlegustu tilfellin af þessu krabbameini, það er þau sem geta dreifst víðar um líkamann, minnkaði um heil 60%.

Þeir sem standa að rannsókninni vara þó við að menn fari í mikla kaffidrykkju til að draga úr þessari gerð af krabbameini. Það virðist sem koffín í kaffinu sé ekki það sem valdi minni líkum á krabbameininu því enginn munur var á milli þeirra karlmanna sem drukku venjulegt kaffi og þeirra sem drukku koffínlaust kaffi.

Hinsvegar kom í ljós að mjög hófleg drykkja á kaffi eða einn til þrír bollar á dag minnkaði um 30% líkurnar á að menn fengju alvarlegasta tilfellið af krabbameini í blöðruhálskirtli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×