Erlent

Samsæriskenningar í kringum handtöku Strauss-Khan

Samsæriskenningar í tengslum við handtöku Dominique Strauss-Khan forstjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eru töluvert til umfjöllunar í frönskum fjölmiðlum í morgun.

Sú helsta af þessum kenningum snýst í kringum twitter skilaboð sem Jonathan Pinet, pólitískur samherji Nicolas Sarkozy Frakklandsforseta sendi frá sér um 20 mínútum eftir að  Strauss-Khan var handtekinn og töluvert áður en nokkur fjölmiðill hafði greint frá málinu.

Skilaboðin sem Pinet sendi frá sér voru um að Strauss-Khan hefði verið handtekinn vegna nauðgunar á hóteli sínu en ekki í flugvél sem var að fara til Parísar. Skilaboðin voru send klukkan fimm síðdegis að New York tíma en Strauss-Khan var handtekinn 20 mínútur í fimm.

Dagblaðið Le Figaro fer yfir tímasetningar í þessari samsæriskenningu og þar segir að fyrst hálfum öðrum tíma eftir skilaboð Pinets hafi fyrstu fjölmiðlarnir í New York greint frá málinu.

Sjálfur segir Pinet að hann hafi fengið upplýsingarnar frá vini sínum sem vinnur á veitingastað hótelsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×