Innlent

Opnunarhátíð Hörpunnar kostaði 20 milljónir króna

Kostnaður við opnunarhátíð Hörpunnar nam tuttugu milljónum króna. Stjórnendur Hörpunnar neita að gefa upp hverjir voru á gestalista opnunarkvöldsins.

Yfir þrjátíu þúsund manns heimsóttu Hörpuna um helgina þegar húsið var formlega opnað. Fréttastofa sendi stjórnendum Hörpunnar fyrirspurn vegna kostnaðarins við hátíðina.

Spurningarnar voru tvær:

"Hver er samanlagður kostnaður vegna opnunarhátíðar Hörpunnar." og var beðið um kostnaðinn sundurgreindan.

Og "Hverjir voru á gestalista á opnunarkvöldinu" en dyr hússins voru ekki opnaðar almenningi fyrr en á laugardaginn.

Í svari stjórnenda Hörpu segir að beinn kostnaður Hörpu sé áætlaður tuttugu milljónir króna. Inn í þessum kostnaði felst meðal annars umferðarstýring, húsgæsla, þrif og greiðslur listamanna utan Sinfóníuhljómsveitar Íslands og íslensku óperunnar, veitingar og annar kostnaður.

Stjórnendur Hörpu vildu hins vegar ekki gefa upp hverjir voru á boðslista á opnunarkvöldinu og sendu í staðinn Excel skjal með þeim hópum sem voru boðnir. Meðal boðsgesta voru ráðherrar, þingmenn, sendiherrar og fyrrverandi forsetar.

- Þá vekur athygli að á sunnudaginn þurfti almenningur að borga sinn á barnasýningar í Eldborgarsalnum í Hörpu en frítt var á opnunarkvöldið og veitingar í boði menntamálaráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×