Erlent

Fjórir fluttir á spítala eftir skinkurifrildi

Myndin er úr safni. Þessar sneiðar virðast vera nokkuð þunnar og því má ætla að konan yrði ánægð með þykktina á þeim.
Myndin er úr safni. Þessar sneiðar virðast vera nokkuð þunnar og því má ætla að konan yrði ánægð með þykktina á þeim.
Ástæðurnar fyrir því að fólk fer að rífast eru margar hverjar óvenjulegar og sumar eru óskiljanlegar. Frekar óvenjulegt atvik kom upp í stórverslun í bænum Livorno á Ítalíu á dögunum þegar fjórir voru fluttir á spítala eftir rifrildi um skinku.

Rifrildið byrjaði þegar að eldri kona spurði afgreiðslumanninn í kjötborðinu út í hæfileika hans við að skera hráskinku í þunnar sneiðar - sneiðarnar væru alltof þykkar hjá manninum, hélt konan fram. Óljóst er hvað gerðist í kjölfarið en átök brutust út við kjötborðið.

Fjölmiðlar segja að faðir afgreiðslumannsins, sem af einhverjum ástæðum var staddur í versluninni á sama tíma, hafi blandað sér í rifrildið á milli fólksins auk þess að eiginmaður konunnar og tveir synir þeirra hafi skorist í leikinn.

Lögregla og þrír sjúkrabílar voru kallaðir á vettvang og voru fjórir fluttir á spítala og gert var að sárum þeirra. Enginn hefur verið kærður vegna atviksins og enginn er alvarlega slasaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×