Erlent

Bretadrottning heimsækir Írland í fyrsta sinn á ferlinum

Söguleg stund verður á Írlandi á morgun en þá kemur Elísabet bretadrottning í fyrsta sinn í heimsókn til landsins.

Elísabet Bretadrottning á að baki langan og farsælan feril og hún hefur heimsótt 129 lönd á þeim ferli þar á meðal Ísland.  Írland hefur hingað til ekki verið í þessum hópi. Raunar hefur höfuð bresku konungsfjölskyldunnar ekki heimsótt Írland síðan árið 1911 þegar Georg fimmti kom þangað. Á þeim tíma tilheyrði landið Bretlandi.

Í umfjöllun BBC um málið segir að hin opinbera heimsókn Bretadrottningar hafi verið að frumkvæði Mary McAleese forseta Írlands og hún tekur á móti drottningu á heimili sínu á fyrsta degi heimsóknarinnar. Elísabet Bretadrottning mun fara víða um Írland og skoða ýmsa staði. Þá er reiknað með að hún haldi hátíðarræðuna í kvöldverðarboði ríkisstjórnarinnar í Dublinarkastala.

Einu áhyggjur Mary McAleese í tengslum við þessa heimsókn Bretadrottningar er að meðlimir írska lýðveldishersins IRA noti tækifærið til einhverra aðgerða. Því verða gífurlegar öryggisráðstafanir gerðar í kringum þá fjóra daga sem Bretadrottning dvelur á Írlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×