Erlent

Hver er þessi Dominique Strauss-Kahn?

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Dominique Strauss-Kahn hefur verið ákærður fyrir kynferðisbrot. Mynd/ afp.
Dominique Strauss-Kahn hefur verið ákærður fyrir kynferðisbrot. Mynd/ afp.
Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, mun neita því að hafa framið kynferðisbrot gegn hótelþernu þegar að hann verður færður fyrir dómara í dag. Þetta segja verjendur hans í samtali við CNN. Hann var handtekinn í gær vegna meints brots og ákærður í morgun.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur verið töluvert mikið til umfjöllunar á Íslandi frá bankahruni. Þá ákváðu Íslendingar að leita hjálpar hjá sjóðnum. Þennan tíma hefur Strauss-Kahn farið fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. En hver er þessi maður?



  • Hann er 61 árs gamall.
  • Hann er fæddur í Frakklandi, en var að hluta til alinn upp í Marokkó. Hann var stúdent við HEC skólann í París og síðar við Sciences Po háskólann í Frakklandi.
  • Hann er tvískilinn, en er nú giftur Anne Sinclair, virtum blaðamanni í Frakklandi.
  • Hann er fyrrverandi viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra í Frakklandi. Hann á stóran heiður af þeirri aðferðafræði sem notuð var þegar franskt efnahagslíf var endurreist í lok tíunda áratugar síðustu aldar. Þá vann hann að því að snarminnka skuldir ríkissjóðs Frakklands og einkavæddi opinberar stofnanir og fyrirtæki.
  • Hann vék úr ríkisstjórn árið 1999 vegna ásakana um spillingu. Hann var síðar sýknaður af slíkum ásökunum fyrir dómi.
  • Hann sóttist eftir því að vera útnefndur forsetaframbjóðandi sósíalista árið 2006, en hlaut ekki útnefningu.
  • Hann hefur síðan gegnt lykilhlutverki í baráttunni við alheimskreppuna sem yfirmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins allt frá árinu 2007.


Heimild: Aftenposten


Tengdar fréttir

Verjandi Strauss-Kahn varar við fjölmiðlasirkus

Verjandi Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, varar fólk við því að dæma skjólstæðing sinn of fljótt. Strauss-Kahn var handtekinn í gær. Hann er sakaður um að hafa nauðgað hótelþernu í New York í gær og hefur verið ákærður vegna málsins.

Framkvæmdastjóri AGS handtekinn vegna kynferðisbrots

Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, var handtekinn í New York í dag. Hann er sakaður um kynferðisbrot gegn hótelþernu, eftir því sem fram kemur á vef The New York Times.

AGS tjáir sig ekki um mál framkvæmdastjórans

Caroline Atkinson, framkvæmdastjóri ytri samskipta hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, segir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn muni ekkert tjá sig um mál framkvæmdastjóra sjóðsins, sem var handtekinn í gær.

Framkvæmdastjóri AGS ákærður fyrir nauðgun

Dominique Strauss-Kahn framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, AGS, var handtekinn í New York í Bandaríkjunum í gærkvöld, sakaður um að hafa reynt að nauðga herbergisþernu á hóteli í borginni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×