Innlent

Línurnar lagðar fyrir kennara

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Grunnskólar skrifuðu undir nýjan kjarasamning í gær. Mynd/ GVA.
Grunnskólar skrifuðu undir nýjan kjarasamning í gær. Mynd/ GVA.
Fjölmörg félög innan Kennarasambands Íslands eiga eftir að ljúka við gerð kjarasamninga. Grunnskólakennarar skrifuðu undir nýjan kjarasamning í gær. Með honum hafa línurnar líklegast verið lagðar fyrir hin félögin.

„Við erum með önnur félög. Fjögur sem semja við samninganefnd svetiarélaganna. Svo erum við að sjálfsögðu með framhaldsskólakennara sem semja við ríkið," segir Þórður Á. Hjalstested, formaður Kennarasambands Íslands. Hann segir að samningaviðræður hafi verið í gangi hjá flestum félögunum.

„Það er ljóst að samninganefnd sveitarfélaga vildi svona í fyrstu ræða mest við stóru félögin. Þannig hefur gangurinn á þessu nú verið og við vonust til þess að núna fari eitthvað að gerast hjá öllum," segir Þórður. Hann segir að menn hafi átt von á því að þegar ASÍ og Samtök atvinnulífsins væru búin að semja þá kæmist skriður á samningamál kennara. Samningur grunnskólakennara hafi verið á svipuðum nótum og samningur ASÍ við Samtök atvinnulífsins.

Hann segir þó að staða leikskólakennara hafi verið sýnu verst og leikskólakennarar því verið að sækja eftir að fá ákveðna leiðréttingu á sínum málum „Þannig að við eigum svo sem eftir að sjá hvernig það þróast," segir Þórður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×