Innlent

Friðurinn dýru verði keyptur

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Orri Hauksson er framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. Mynd/ Valli.
Orri Hauksson er framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. Mynd/ Valli.
Friðurinn á atvinnumarkaði er mjög dýru verði keyptur fyrir mörg fyrirtæki, segir Orri Hauksson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.

Eins og fram hefur komið skrifuðu Samtök Atvinnulífsins og aðildarfélög ASÍ undir nýjan kjarasamning á dögunum. Samningarnir fela í sér prósentuhækkanir á launum. Einnig er kveðið á um eingreiðslu að upphæð 50 þúsund krónur og tvær viðbótagreiðslur, samtals að upphæð 25 þúsund krónur vegna þess hve það dróst að klára kjarasamningana.

„Þetta er mjög stór biti," sagði Orri Hauksson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Hann sagði að samningarnir væru mjög framhlaðnir. Það þýðir að mikill kostnaður skapist fyrir fyrirtækin í upphafi. „Þetta eru milljónir og jafnvel tugir milljóna sem sum fyrirtæki verða að greiða í upphafi bara vegna eingreiðslunnar," sagði Orri.

Orri bendir á að nýju kjarasamningarnir geti orðið fyrirtækjum misjafnlega erfiðir. „Fyrirtæki sem byggja sína þróun á Íslandi en eru síðan að flytja út og eru með megnið af sínum tekjum frá útlöndum - þetta er fínt fyrir þau," sagði Orri. Fyrir slík fyrirtæki sé aðalatriðið að friður hafi skapast á vinnumarkaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×