Innlent

Sérstakur saksóknari stofnun ársins að mati SFR

Val á Stofnun ársins og Fyrirtæki ársins er samvinnuverkefni SFR stéttarfélags í almannaþjónustu og VR en þetta er í sjötta sinn sem SFR velur Stofnun ársins. Umfang könnunarinnar hefur aukist umtalsvert frá því í fyrra.

Í ár stóð öllum ríkisstarfsmönnum til boða að taka þátt í könnuninni, óháð stéttarfélagsaðild, en starfsmannaskrifstofa fjármálaráðuneytisins er nú í samstarfi við SFR.  Könnunin náði því til um 19.000 ríkisstarfsmanna og samtals til um 44 þúsund starfsmanna á almennum og opinberum vinnumarkaði. Könnunin sem er stærsta árlega vinnumarkaðskönnunin hér á landi mælir viðhorf starfsmanna til vinnustaðar síns og vinnuumhverfis.

Sérstakur saksóknari var efstur í flokki stærri stofnana (50 starfsmenn og fl.) og fékk einkunnina 4,40, af 5 mögulegum, en Sýslumaðurinn í Vík var efstur í flokki minni stofnana (undir 50 starfsmenn) með einkunnina 4,79. Fjölbrautaskóli Snæfellinga bætir sig mest á milli ára og  er réttnefndur hástökkvari ársins 2011. Hann var í neðsta sæti á lista minni stofnana sem komust á blað í fyrra en er nú í 19 sæti af 85.

Á heildina litið kemur í ljós að aðeins dregur úr ánægju starfsmanna á vinnustöðum, sérstaklega á stærri stofnunum, en fylgni er milli starfsánægju og stærðar stofnana. Starfsfólk á minni stofnunum er almennt ánægðara en á þeim stærri.  Starf og staða starfsmanns innan stofnunar skiptir einnig máli en stjórnendur og starfsfólk með mannaforráð er ánægðara í starfi en aðrir starfsmenn.

Niðurstöður könnunarinnar í ár sýna að vaxandi óánægja er með launakjör, en ánægja með launakjör hefur nú minnkað tvö ár í röð. Í ár eru um 60% starfsmanna óánægðir með launakjör sín.  Í fyrra voru það 51% og árið 2009 voru þeir 44%.  Nokkur munur er á afstöðu kynja en konur eru mun óánægðari með laun sín en karlar. Þær eru hins vegar ánægðari með sveigjanleika í vinnu.

Karlar segja oftar  að ætlast sé til að þeir vinni yfirvinnu , en niðurstaða könnunarinnar bendir til þess að konur fái meira svigrúm til að útrétta í vinnutímanum en karlar. Þær segjast eiga auðveldara með að samræma vinnu og fjölskyldulíf en karlar gera. Einnig segjast konur eiga auðveldara með taka sumarfrí þegar þeim hentar en karlar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×