Erlent

Þúsundir gistu utandyra í Lorca

Mikil skelfing greip um sig í bænum sem varð illa úti.
Mikil skelfing greip um sig í bænum sem varð illa úti. MYND/AP
Þúsundir íbúa á Suður Spáni gistu utandyra í nótt af ótta við frekari jarðskjálfta á svæðinu. Í gærkvöldi reið fremur lítill skjálfti yfir sem hafði þó þær afleiðingar að nokkrar byggingar hrundu í bænum Lorca og tíu manns létust.

Skjálftinn mældist mældist 5,2 stig og átti upptök sín á mjög litlu dýpi, eða einum kílómetra undir yfirborði jarðar og um 120 kílómetrum suðvestur af borginni Alicante. Sú staðreynd að skjálftinn var á svo litlu dýpi útskýrir eyðilegginguna sem hann olli í Lorca þrátt fyrir smæð hans. Nokkrir svipaðir skjálftar hafa fylgt í kjölfarið og óttast yfirvöld að tala látinna gæti hækkað. Mestar skemmdir urðu í miðbæ Lorca og spítali bæjarins var rýmdur til öryggis vegna skemmda á byggingunni.

Ekki liggur fyrir hve margir hafi slasast en spænskir miðlar segja að um tugi sé að ræða. jarðskjálftar eru ekki óalgengir á Spáni en fæstir þeirra eru nægilega sterkir til þess að þeir greinist nema á mælum. Skjálftinn í gær og afleiðingar hans eru þær alvarlegustu á Spáni í að minnsta kosti hálfa öld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×