Innlent

Chrystel verður aflífuð

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Chrystel verður tekin af lífi samkvæmt niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar.
Chrystel verður tekin af lífi samkvæmt niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar.
Yfirvöldum ber að aflífa rottweilertíkina Chrystel. Þetta er niðurstaða úrskurðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarnir sem birt var í dag. Sýslumaðurinn á Selfossi úrskurðaði um miðjan mars að Chrystel skyldi aflífuð eftir að hún beit gestkomandi við hús í Hveragerði þar sem hún var bundin. Eigandi tíkarinnar kærði þá ákvörðun.

Áður en ákvörðun sýslumanns var tekin lá fyrir álit héraðsdýralæknis sem taldi að samkvæmt skapgerðarmati kynni hundurinn að bíta aftur. Hundurinn var fluttur í vistun af hálfu yfirvalda þann 4. mars 2011 en hundurinn hefur nú verið numinn á brott úr þeirri vistun. Þar með telur úrskurðarnefndin að ekki hafi tekist að fyrirbyggja þá hættu sem kunni að stafa af hundinum og því telur úrskurðarnefndin sér ekki fært að taka ákvörðun um að fresta réttaráhrifum ákvörðunar kærða um að aflífa skuli rottweilertíkina Chrystel. Nefndin kemst því að þeirri niðurstöðu að aflífa skuli hundinn og staðfestir þannig ákvörðun sýslumanns.

Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður á Selfossi, segist telja að úrskurðurinn sé endanlegur. Hann segir að Chrystel sé ennþá týndur eftir að hann hvarf úr vistuninni á dögunum. Hann segir ljóst að sá sem haldi hundinum núna geri það ólöglega og býst við því að lýst verði eftir hundinum í dag. Lögreglustöðvum og dýralæknum á öllu landinu verði gert viðvart í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×