Formúla 1

Vettel: Tókum áhættu mörgum sinnum og það gerir sigurinn enn sætari

Verðlaunahafarnir í Mónakó í dag. Fernando Alonso. Sebastian Vettel og Jenson Button.
Verðlaunahafarnir í Mónakó í dag. Fernando Alonso. Sebastian Vettel og Jenson Button. Mynd: Getty Images/Paul Gilham
Sebastian Vettel á Red Bull vann sitt fimmta mót í Formúlu 1 á árinu, þegar hann kom fyrstur í endmark í Mónakó kappakstrinum í dag. Fernando Alonso á Ferrari og Jenson Button á McLaren sóttu stíft að honum í lokin en höfðu ekki erindi sem erfiði. Alonso varð annar og Button þriðji.

Vettel er nú með gott forskot í stigamóti ökumanna. Hann er með 138 stig, en Lewis Hamilton hjá McLaren er með 85, Mark Webber hjá Red Bull 79, Button 69 og Alonso 69.

„Það er erfitt að lýsa deginum. Tilfinningin er frábær, en ég hef séð hvað þarf til að vinna hérna. Keppnin var brjáluð í dag", sagði Vettel í fréttatilkynningu frá Red Bull.

„Það er erfitt að ímynda sér að hægt sé að keyra mót hérna á einu þjónustuhléi, en það gerðum við. Þjónustuhlé okkar gekk ekki nógu vel og við töpuðum sæti til Jenson, sem kom mér á óvart. Hann ók hratt á mýkri dekkjunum, en ég var á þeim harðari sem voru í boði."

„Ég hugsaði með mér að gefast ekki upp til að minnka bilið. Útkoma öryggisbílsins hjálpaði okkur, en það var engin leikur að aka um 60 hringi á sömu dekkjunum. Það var ekki inn í myndinni! Við tókum margar áhættur og það gerir sigurinn í dag enn sætari."

Þegar toppmennirnir höfðu lokið þjónustuhléum sínum var Vettel fyrstur.

„Í lok mótsins voru dekkin hvergi nærri góð, en eina leiðin til að sigra var að klára dæmið á sömu dekkjum. Það var mikil pressa frá Fernando og Jenson og síðustu hringirnir hefðu verið erfiðir. En öryggisbíllinn kom út og við gátum því skipt um dekk."

„Ég er mjög ánægður. Um tíma þegar ég var í öðru sæti og Jenson 15 sekúndum á undan, þá var sigur fjarri mér, en þetta er brjálaður staður. Rúllettunni var rúllað í gærkvöldi og snerist í keppninni líka. Ég er mjög ánægður. Þetta eru frábær úrslit og heiður að vera meðal þeirra sem hafa sigrað Mónakó mótið. Við áttum sigurinn skilinn, við tókum áhættu og uppskárum verðlaunin", sagði Vettel.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×