Erlent

Verjandi Mladic segir hann ekki færan um að koma fyrir dóm

Verjandi Radko Mladic segir ómögulegt að halda uppi vitænum samræðum við stríðsherrann fyrrverandi, sem hafi í þrígang fengið heilablóðfall og þrugli nú tóma vitleysu. Hann sé ekki fær um að koma fyrir dóm.

Eiginkona, sonur og tengdadóttir Radko Mladic serbneska stríðsherrans sem sakaður er um stríðsglæpi og þjóðarmorð í Bosníu á árunum 1992 til 1995, heimsóttu hann í fangelsi í Belgrad í dag. Verjandi Mladic segir hann í þrígang hafa fengið heilablóðfall og ekkert samhengi sé í því sem hann segi og ómögulegt að halda uppi rökrænum samræðum við hann.

„Ég get sagt ykkur að heilsa hans í dag er mun verri en í gær. Andleg líðan hans er mun verri," segir Milos Saljic verjandi Mladic.

Mladic er sakaður um hlutdeild í mestu stríðsglæpum og óhæfuverkum sem framin hafa verið í Evrópu frá því í heimsstyrjöldinni síðari. Hann fannst fyrir tilviljun og var handtekinn á fimmtudag eftir að hafa komist undan réttvísinni í sextán ár. Dómstóll mun væntanlega úrskurða strax á morgun hvort hann verður framseldur til stríðsglæpadómstólsins í Haag. Meðal hrottaverka sem hann er sakaður um eru fjöldamorð á átta þúsund múslimskum drengjum og karlmönnumí Srebrenica.

„Mladic hafði ekkert að gera með það sem gerðist í Srebrenica. Hann bjargaði fjölmörgum konum, börnum og hermönnum. Fyrirskipanir hans voru að flytja brott særða fyrst, síðan konur og börn og loks hermenn sem höfðu verið teknir til fanga. Það sem gerðist tengist honum ekki. Hann gaf aldrei fyrirskipanir um það. Um þetta ræddum við og þeir vissu það áður," segir Darkó Mladic, sonur Ratkó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×