Erlent

Mladic segist ekki hafa fyrirskipað fjöldamorðin

Ratkó Mladic
Ratkó Mladic
Fyrrverandi hershöfðinginn Ratkó Mladic segist ekki hafa fyrirskipað fjöldamorð á mörg þúsundum múslima í Srebrenica árið 1995. Þetta hafa fjölmiðlar eftir Darko syni hans sem spjallaði við fjölmiðla eftir að hann heimsótti föður sinn í Serbíu í dag.

„Hann sagði mér að hann hefði ekkert með ódæðin í Srebrenica að gera. Hann bjargaði mörgum konum, börnum og baráttumönnum. Hann fyrirskipaði einungis að flytja á brott þá særðu, konur og börn," segir Dark Mladic sonur Ratkó.

Talið er líklegt að Mladic verði framseldur til stríðsglæpastólsins í Haag í Hollandi eftir helgi. Dómstóll í Serbíu úrskurðaði að Mladic væri heill heilsu og hægt væri að framselja hann til Hollands en lögfræðingar hans, eru ekki sammála því og hafa áfrýjað þeim úrskurði. Ef dómstólar komast að sömu niðurstöðu aftur, verður Mladic framseldur á morgun eða þriðjudag.

Mladic var yfirmaður serbneska hersins í Bosníu stríðinu og heyrði beint undir leiðtogann Radovan Karadzic sem var handtekinn í Belgrad árið 2008. Mladic var ákærður af stríðsglæpadómstólnum í Haag fyrir fjöldamorð á að minnsta kosti 7500 múslimskum mönnum og drengjum í bænum Srebrenica árið 1995.

Hershöfðinginn gat um frjálst höfuð strokið fyrstu árin eftir stríðið en hann lét sig hverfa þegar fyrrverandi forseti Júgóslavíu Slobodan Milosevic var handtekinn árið 2001.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×