Erlent

Tíu látist í Þýskalandi vegna sýkingar í grænmeti

Að minnsta kosti tíu hafa látist af völdum E.coli sýkingar í Þýskalandi og tvö hundruð og sjötíu hafa smitast. Sóttvarnarstofnun Evrópu telur að útbreiðsla sýkingarinnar sé ein sú stærsta sem komið hefur upp. Þessi gerð E.coli ræðst einna helst á nýru og miðtaugakerfi þeirra sem af henni smitast.

Flest tilfellin hafa greinst í kring um Hamborg og hafa heilbrigðisyfirvöld í Þýskalandi ráðlagt fólki að leggja sér ekki agúrkur, tómata eða kál til munns. Matvælastofnun sendi frá sér tilkynningu í gær þar sem fram kemur að um sé að ræða agúrkur frá tveimur framleiðendum á Spáni.

Stofnunin segir að íslenskir neytendur séu ekki í hættu en stofnunin hefur fengið staðfest að vörur frá þessum fyrirtækjum hafi ekki verið fluttar til Íslands í apríl eða maí og því sé ekki hætta á matarsýkingum af þessum uppruna við neyslu á hráu grænmeti hér á landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×