Innlent

Kjaraviðræðum ríkisins og framhaldsskólakennara slitið

"Menn verða náttúrulega orðnir mjög reiðir í haust,“ segir formaður Félags framhaldsskólakennara.
"Menn verða náttúrulega orðnir mjög reiðir í haust,“ segir formaður Félags framhaldsskólakennara. Mynd/Heiða Helgudóttir
Kjaraviðræðum framhaldsskólakennara og ríkisins hefur verið slitið en upp úr slitnaði í gær þegar í ljós kom að samninganefnd ríkisins hafði ekki umboð til að semja við framhaldsskólakennara þrátt fyrir að hafa átt í viðræðum við þá undanfarna daga. Aðalheiður Steingrímsdóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara, segir ljóst að það geti haft alvarlegar afleiðingar verði kennarar enn samningslausir í haust.

Kjarasamningur kennara rann út í fyrrahaust en mikill seinagangur hefur verið í viðræðum um endurnýjun samninga. Grunnskólakennarar sömdu við ríkið nýverið og var allt eins búist við að samningar við framhaldsskólakennara myndu fylgja í kjölfarið. Aðalheiður segir samningsaðila hafa verið sammála um að ná niðurstöðu áður en skólarnir lykju stöfum í vor. „Það kom síðan alvarlegt bakslag í viðræðurnar í gær en mikil efnisleg samræða er búin að eiga sér stað undanfarna daga."

Aðalheiður segir afar slæmt ef kennarar verða án samnings áfram. „Það er viðbúið að málin færist yfir á haustið og þá segir það sig sjálft að þá verður staðan orðin allt öðruvísi. Það er alvarlegt ef að okkar fólk fer út í sumarið án þess að fá nokkuð út í sín laun og það getur haft slæmar afleiðingar."

Aðspurð hvort framhaldsskólakennarar íhugi að grípa til verkfalls segist Aðalheiður lítið geta sagt til um það. „Nú er starfstíma kennara að ljúka og öll sú umræða er eftir, en menn verða náttúrulega orðnir mjög reiðir í haust. Það blasir einfaldlega við."

Aðalheiður segir boltann nú vera hjá ríkinu og fjármálaráðherra. „Við gerum kjarasamning við fjármálaráðherra og hann þarf náttúrulega mjög að hugsa sinn gang. Er meiningin að það verði ekkert gert fyrir framhaldsskólanna á næstu mánuðum? Það var tækifæri til að gera þetta núna og báðir samningsaðilar hafa verið sammála um mikilvægi þess að ná niðurstöðu en tækifærið virðist algjörlega vera að glutrast."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×