Innlent

Össur hræðist ekki kosningar síðar á árinu

Mynd/GVA
Utanríkisráðherra hræðist ekki þingkosningar síðar á þessu ári þar sem málin séu að leggjast með stjórninni. Hann telur ástæðulaust að ganga til kosninga ef ríkisstjórn er með þingmeirihluta og kemur málum sínum þokkalega fram.

Forystumenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafa um langt skeið kallað eftir því að ríkisstjórn Samfylkingar og VG fari frá völdum og að boðað verði til þingkosninga.

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, telur eftur á móti óþarfi að boða til kosninga. „Ríkisstjórn Jóhönnu býr þess utan við betri heilsu en tíðar fregnir af yfirvofandi andláti hennar á stöku vefmiðlum gefa til kynna. Sjálfur held ég að fólk sé hundþreytt á kosningum. Ég dreg líka í efa að stjórnarandstöðuna langi mikið í kosningar núna,“ segir Össur í viðhafnarviðtali á Eyjunni.

„Sjálfstæðisflokkurinn er að búa sig undir uppgjör og verður lengi að sleikja sárin. Mér finnst líklegt að Framsókn hafi meiri áhuga á að komast í ríkisstjórn en fara í kosningar. Sjálfur væri ég ekki hræddur við kosningar síðar á þessu ári því málin eru að leggjast með stjórninni og ég held að Samfylkingin þyrfti að bera minnstan kvíðboga fyrir kosningum. Við höfum mesta málefnasérstöðu í dag,“ segir Össur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×