Innlent

Snorri í Betel: Dómsdagur í fyrsta lagi eftir þúsund ár

„Við erum að tala þúsund ár plús eitthvað,“ segir Snorri Óskarsson, safnaðarhirðir Betel.
„Við erum að tala þúsund ár plús eitthvað,“ segir Snorri Óskarsson, safnaðarhirðir Betel.
Heimsendir er hvergi hafinn þvert á dómadagsspár bandarísks predikara. Snorri í Betel segir að endalok veraldar geti ekki verið tímasett fyrir mönnum þannig að þeir viti tíma eða tíðir.

Heimurinn er enn til og lífið gengur sinn vanagang. Bandaríski predikarinn Harold Camping hafði spáð því að klukkan 18 í hverjum heimshluta myndu hefjast miklir jarðskjálftar og í framhaldinu yrðu hinir dyggðugu geislaðir upp til himna. Fjöldi erlendra fjölmiðla hafa fjallað um um málið í morgun en ekki er laust við háð í skrifum þeirra. Enn séu allir nokkuð sprækir austast á hnettinum þar sem klukkan sló sex fyrir nokkru síðan.

Snorri Óskarsson, safnaðarhirðir Betel, var að hlusta á upptökur með Harold Camping þegar fréttastofa náði tali af honum, en hann segir ólíklegt að nokkuð verði úr spádómum Campings úr þessu.

„Nei, það verður ekkert úr þessu hjá honum núna. Alla vega ekki þennan daginn og ekki á morgun,“ segir Snorri sem telur spádóma Campings aldrei hafa verið sennilega. „Endalok veraldar eru aldrei tímasett fyrir mönnum þannig að við fáum nákvæmlega að vita um tíma eða tíðir enda talar Kristur um það. Hann segir við sýna lærisveina, það er ekki ykkar að vita tíma eða tíðir sem Faðir setti af sjálfs sín valdi.“

Snorri segir að dómsdagur verði ekki hér á þessari jörðu, heldur fyrir hásæti guðs almáttugs, og sá dagur komi þó það verði ekki á næstu vikum. Það sé aukinheldur tilhlökkunarefni.

„Þessi dómsdagur sem við erum að tala um eða hann Harald er miklu nær því sem við myndum kalla endi veraldar.“

Snorri segir aðeins lengra í það. „Vegna þess að áður en það gerist mun Jesús Kristur stofna sitt þúsund ára ríki hér á þessari jörð þannig að við erum að tala þúsund ár plús eitthvað. Þannig að það er ekki í náinni framtíð.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×