Innlent

Boða yfirvinnubann

Að öllu óbreyttu mun allsherjaryfirvinnubann flugumferðarstjóra taka gildi þrítugasta maí en kjaraviðræðum þeirra miðar hægt áfram. Formaður samtaka ferðaþjónustunnar segir bannið skapa mikla óvissu um ferðastarfsemi sumarsins.

Félag íslenskra flugumferðarstjóra boðaði til atkvæðagreiðslu um allsherjaryfirvinnubannið en það var samþykkt með miklum meirihluta, eða með sextíu og tveimur atkvæðum gegn þremur. Flugumferðarstjórar eiga nú í kjaraviðræðum en fundur þeirra með samtökum atvinnulífsins stóð til klukkan sex í morgun í karphúsinu.

Allsherjaryfirvinnubannið mun taka gildi 30. maí, ef kjarasamningar nást ekki fyrir þann tíma. Það hefur í för með sér að öll yfirvinna flugumferðarstjóra verður bönnuð á öllum tímum sólarhrings, en hingað til hefur bannið einungis tekið til nætur- og helgarvakta. Samkvæmt heimildum fréttastofu er gert ráð fyrir töluverðri yfirvinnu á vaktaskipulagi flugumferðarstjóra í sumar vegna sumarleyfa og aukinni flugumferð. Þannig gætu veikindi flugumferðarstjóra sett flugferðir til Íslands úr skorðum með litlum sem engum fyrirvara.

Árni Gunnarsson, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, segir ljóst að þessar aðgerðir geti raskað flugi til og frá landinu verulega. Hann segir bannið því setja starfsemi ferðaþjónustunnar í mikla óvissu. Engu að síður bindur hann þó vonir sínar við að samningar náist og hvetur menn til að ná saman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×