Innlent

Reyndi að selja 100 krónur á eina og hálfa milljón

Umsjónarmaður seðlasafns Íslandsbanka var handtekinn á þriðjudag, grunaður um að hafa stolið 100 króna seðli frá 1904, úr safni bankans og reynt að koma þeim í verð. Þetta kemur fram á Pressunni.

Þar kemur fram að maðurinn hafi stolið seðlinum úr verðmætu seðlasafni sem er sett saman úr söfnum þeirra banka sem runnu saman á sínum tíma í eitt fyrirtæki, það er að segja Verslunarbankans, Útvegsbankans, Alþýðubankans og Iðnaðarbankans.

Svo virðist sem umsjónarmaðurinn hafi reynt að selja safnara seðilinn og vildi fá eina og hálfa milljón króna fyrir.

Seðillinn er afar fágætur en samkvæmt Pressunni eru aðeins sex eintök til á öllu landinu. Safnarinn, sem bauðst að kaupa seðilinn, setti sig í samband við lögreglu, sem handtók manninn í kjölfarið.

Rannsókn málsins og skýrslutöku er lokið.

„Við getum ekki tjáð okkur málið,“ sagði Guðný Helga Herbertsdóttir, upplýsingafulltrúi Íslandsbanka um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×