Erlent

Doherty aftur á bak við lás og slá

Breski rokkarinn Pete Doherty var í dag dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir að hafa kókaín í vörslu sinni. Hinn 32 ára gamli söngvari var handtekinn í janúar í fyrra en þetta er í þriðja sinn sem hann er dæmdur í fangelsi. Þar fyrir utan hefur hann fengið 25 vægari dóma fyrir eiturlyfjanotkun.

Málið kom upp í kjölfar andláts Robyn Whitehead, en hún var bresk yfirstéttarstúlka sem lést af völdum of stórs skammts af heróíni. Síðustu tíu dögum lífs síns eyddi Robyn í gerð heimildarkvikmyndar um Doherty og sýnir myndefnið hana reykja krakk með söngvaranum. Dómarinn komst að þeirri niðurstöðu að Doherty hefði ekki átt þátt í dauða hennar, en hann fékk eftir sem áður dóm fyrir kókaínið.

Doherty sló fyrst í gegn með hljómsveit sinni The Libertines og síðar með  Babyshambles. Hann átti lengi vingott við ofurmódelið Kate Moss og í kvöld átti hann að spila á tónleikum í Glasgow fyrir fullu húsi. Ekkert verður af þeim úr þessu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×