Erlent

Berlusconi missir fylgi

Berlusconi virðist standa höllum fæti í kosningum.
Berlusconi virðist standa höllum fæti í kosningum. Mynd/ap
Kannanir benda til þess að Berlusconi sé að tapa fylgi í heimaborg sinni, Mílanó, en nú standa yfir kosningar í landinu. Svo virðist sem sitjandi borgarstjóri og flokksfélagi Berlusconis hafi tapað sæti sínu og hinn vinstrisinnaði Giuliano Pisapia muni setjast í borgarstjórastólinn í hans stað. Verði þetta niðurstaðan verður það í fyrsta skipti í tvo áratugi sem Berlusconi tapar meirihluta í borginni en auk þess virðist barátta flokksfélaga hans í Napólí vera töpuð. Haft var eftir forsætisráðherranum að tap í Mílanó væri óhugsandi en hann kallaði kosningarnar í borginni atkvæðagreiðslu um sína eigin forystu. Þá lét hann meðal annars þau orð falla að ef flokksfélagi hans yrði ekki kjörinn myndi Mílanó breytast í sígaunabæ. Nokkrar sjónvarpsstöðvar, sumar þeirra í eigu Berlusconis, hafa verið sektaðar í mánuðinum fyrir að veita forsætisráðherranum meiri umfjöllun en andstæðingum hans. Nýlega hafa nokkur málaferli farið í gang þar sem Berlusconi er sakaður um spillingu auk þess sem hann hefur lent í þónokkrum hneykslum, en hann hefur meðal annars verið sakaður um að hafa haft kynmök við ólögráða vændiskonu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×